Sanna, Togga og vel rekin fyrirtæki
„Mér finnst að það eigi að banna ungar hressar dúfur á brautarstöðvum. Brautarstöðvar ættu að virka eins og elliheimili fyrir dúfur og bara þessar þreyttu og feitu fái að vera þar,“ sagði maðurinn minn upp úr eins manns hljóði í morgun. Í hjónabandi lærir maður alltaf eitthvað nýtt; að þessu sinni að maðurinn minn eigi samleið með Flokki fólksins,
Ég er reyndar ósammála honum. Við þurfum öll á skjóli að halda, líka við ungu og mjóu dúfurnar. Ég tel að það sé nóg af yfirbyggðum brautarstöðvum og almannarýmum í helstu stórborgum Evrópu til að allar dúfur ættu að hafa skjól yfir höfuðið, að minnsta kosti part úr degi og í helstu hríðarbyljunum. Það er samt hjarta í þessum pælingum hjá okkur báðum.
Í þessu samhengi fór ég að pæla í fólkinu sem er í framboði til Alþingis og myndi finnast það raunhæfast, og jafnvel besta niðurstaðan, að frekustu og leiðinlegustu dúfurnar fái forgang á bestu burðarstólpa brautarstöðvanna. Það sé einhverskonar náttúruval, þrátt fyrir að það sé nóg pláss fyrir þær allar. Sem betur fer sýnir kosningapróf RÚV að þetta er minnihluti frambjóðanda. Það er mun þéttara á vinstri vængnum og skoðanakannanir benda til þess að það sé ágætlega sannfærandi þverskurður af skoðunum íslensku þjóðarinnar líka. Þau eru mörg, en samt í minnihluta, sem trúa því að best sé að henda okkur öllum í sömu djúpu laugina og sjá hver kemst yfir hinu megin - þó aðeins hluti hópsins hafi fengið sundkennslu og nokkrir séu jafnvel með bæði kút og froskalappir.
Ég tók sumsé kosningapróf RÚV í morgunsárið, þó ég hafi kosið utankjörfundar í byrjun mánaðarins. Niðurstöðurnar komu mér ekki á óvart. Ég er frekar samkvæm sjálfri mér í þessum prófum ár frá ári og fæ alltaf það sama upp úr hattinum. En eins og venjulega kýs ég hvorki efsta né næstefsta flokk. Ég er eitt af þessum fáu pólitísku viðrinum sem kjósa taktískt - og það hefur bara svínvirkað hingað til nota bene!
Að þessu sinni stóð valið á milli fjórða og fimmta sætis í kosningaprófinu mínu. Á milli Sósíalistaflokksins og Viðreisnar. Á milli vinstri og hægri. Það hefur truflað mig varðandi sossana að ég sé þá ekki sem framtíðarflokk. Finnst þeir vera í viðbragði við ömurlegri þróun í íslensku samfélagi, en óttast að þeir hugsi hvorki nógu skapandi né nógu stórt til að Ísland verði raunverulegt velferðarsamfélag. Ég trúi á sterka millistétt (er það millistétt ef við tilheyrum henni öll?) og vil helst að við njótum öll þeirra forréttinda að fara í gegnum lífið áhyggjulaus um lok mánaðarins, og með svigrúm til að taka ákvarðanir um það í hvað við eyðum.
Ég treysti Sönnu til að hífa fullt af fólki upp í þá stöðu, en óttast að þegar þangað sé komið vanti hugmyndir sem miði að því að Ísland sé bæði skemmtilegt og skapandi samfélag. Menning er til dæmis ekki eitthvað gæluverkefni sem á bara að verja fjármunum í þegar gangarnir á slysó verði orðnir gullslegnir. Mér þykja stjórnmálamenn algjörlega hunsa þá staðreynd að menning er lífsnauðsynlegur lúxus og lýðræðisleg vítamínsprauta.
Á hinn bóginn truflar hægrið mig í Viðreisn. Ég treysti engum betur en Toggu & co til að koma okkur í Evrópusambandið - en óttast að þetta einkarekstursdufl muni á endanum skila okkur miklu dýrari ríkisrekstri. Þegar kreppan skall á hætti IKEA að borga verktökum fyrir snjómokstur á bílastæðinu, keypti græju og sáu sjálf um dæmið. Það sparaði helling - og þannig sé ég einkareksturinn líka fyrir mér. Það er dýrt þegar einkaaðilar græða í stað þess að ríkið sé rekið á núlli. Íslenska ríkið á að vera non-profit samvinnufélag.
Heimilisbókhald drauma minna
Ég myndi segja að mitt fullkomna heimilisbókhald væri einhvern veginn á þá leið að ég gæti farið þokkalega fínt út að borða 1-2 í mánuði, keypt skyndibita 1-2 í mánuði, keypt mér einhver föt að meðaltali mánaðarlega (notuð og ný), og að til framtíðar gætum við Freyr valið hvort við ætlum að vera dugleg í útlandaferðum eða hvort við sláum okkur lán fyrir sumarbústað. Annað hvort eða, ekki bæði. Okkur langar mikið að ferðast en það er uppi rómantísk hugmynd um bústað og barnabörn. Ég þarf ekki dýran bíl og ég ætla líklega ekki að stækka við mig. Við keyptum okkar framtíðarheimili í lok árs 2016, og þó mig langi stundum í garð og heitan pott og allt þetta, þá elskum við blokkaríbúðina okkar af innlifun. Ég þarf að minnsta kosti alls ekki bæði sumarbústað og hús með garði og potti. Ég hefði ekki samviskuna í að horfa upp á Frey þrífa tvo heita potta í okkar eigu... En ég er líka alveg þolinmóð fyrir þessum efnahagslegu draumum, þó það væri sjúklega næs ef við næðum þessu áður en ég verð fimmtug. Þá er Freyr hátt á sjötugsaldri. Ég vil alls ekki búa of stórt og þarf ekki hita í gólfin hjá mér, en Iphone er standard og mig langar sjúklega til að geta keypt mér árskort í sund. Í hinu fullkomna heimilisbókhaldi hef ég efni á eingreiðslum á allskonar svoleiðis hlutum, frekar en raðgreiðslum. Lúxus!
En aftur að kosningaprófinu
Það stóð svolítið í mér að svara spurningunni um skatt á fyrirtæki. Nú er ég alveg að fara að verða virðulegur fyrirtækjarekandi (skatturinn er að klára dæmið sín megin) og hef alla tíð trúað að sem flest fólk ætti að geta verið sinnar gæfu smiðir í þessum efnum. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru framtíðin. Það er valdeflandi að stjórna sínu eigin fyrirtæki, og það má ekki vera of dýrt. Þess vegna svaraði ég því að skattar og gjöld fyrirtækja ættu að vera óbreytt og var þar sammála Framsókn, Pírötum og Samfylkingu.
Að því sögðu þá á þetta auðvitað ekki við öll fyrirtæki - og ég hefði verið til í að hafa möguleika á aðeins núanseraðri spurningu. Það eru fyrirtæki sem hagnast svo brjálæðislega á kostnað neytenda, eða náttúrunnar, að það væri ekkert eðlilegra í heimi en að þau greiddu meira til samneyslunnar. Alls kyns fyrirtæki í sjávarútvegi og fjármálastarfsemi hagnast gríðarlega, og fréttir undanfarinna ára sýna okkur að á verðbólgutímum séu matvörurisarnir að hagnast meira en nokkru sinni fyrr. Það er svo óforskammað að ég þarf helst að finna mér kassa og gjallarhorn. Vendingar á orkumarkaði benda líka til þess að nú séum við að gera menn ríka á rokinu. Ég spyr bara eins og Andri Snær gerði í Morgunútvarpinu hjá mér: „Hver á vindinn?“ Svarið er íslenska þjóðin. Ef við sitjum öll uppi með hann hljótum við öll að fá að hafa af honum not, fjandinn hafi það.
Launajöfnunarhugmyndin
Aðallega langar mig að sjá löggjafann setja á lög um launajöfnuð innan fyrirtækja sem lítur einhvern veginn þannig út að ekki megi vera meira bil en 2,5x á milli lægstu launa í fyrirtæki og þeirra hæstu. Við þurfum að girða fyrir útboð í ræstingum og arðgreiðslur í slíkri löggjöf, svo þetta verði ekki eitt stórt svindl. Meginhugmyndin er að forstjóri í fyrirtæki geti ekki haft 2,5 millu í laun og borgað fólkinu í mötuneytinu 500.000. Það væru fimmfalt hærri laun - sem er galið en mjög algengt. Meira að segja í ríkisstofnunum og hálf-ríkisstofnunum.
Hugmyndin er þessi: Fyrirtæki sem gengur vel þarf að forgangsraða launakostnaðinum sínum þannig að ef forstjórann langi í 2,5 millu í laun, þá þurfi fyrirtækið einfaldlega að hafa efni á því að aðrir séu á amk millu. Auðvitað lækkar þetta arðgreiðslur líka - en þetta er tíu sinnum meira hvetjandi regluverk fyrir starfsfólk en að þau vinni hraðar og meira en sjái alltaf bara toppana í fyrirtækinu njóta góðs af.
Hægri mönnum er mjög tíðrætt um hvata í atvinnulífinu, en gleyma alveg að hugsa út í það hvað óréttlæti er letjandi. Nú ef það er ekkert svigrúm til að hækka laun, hvorki starfsfólks né forstjórans, þá er bara ekkert svigrúm. Þá á forstjórinn ekki skilið að fá feita launahækkun á stjórnarfundi í lok árs. Tough love.
Brosa meira í kappræðum
Ég hlakka mikið til að horfa á kappræðurnar í kvöld og vona að Þorgerður og Sanna verði sömu ljósberar og þær eru alla jafna. Ég er mjög hrifin af þeim og finnst þær takast hið afar sjaldgæfa: að vera hlýjar og persónulegar en líka rökfastar og með allt sitt á hreinu. Ég hef stundum verið fengin til að ráðleggja stjórnmálamönnum um fjölmiðlaframkomu og þá er efsta ráðið alltaf að vera ekki of alvarleg og láta skína í persónuleikann.
Það er allt of algengt að fólk taki málefnunum svo alvarlega að þeim stökkvi ekki bros og hinir skemmtilegustu stjórnmálamenn hafa fallið í þá gryfju að vera svo drepleiðinlegir að þjóðin heldur ranglega að þau séu hinar verstu gribbur.
Ég tek 25.000kr á tímann fyrir frekari ráðleggingar um fjölmiðlaframkomu. Gjöf en ekki gjald, en kannski svolítið seint að hringja í mig fyrir kappræðurnar í kvöld!