Frjáls fjölmiðlun er abstrakt fyrirbæri
Faðir nemanda míns er pólitískur fangi. Hann var hnepptur í varðhald eftir kosningar í heimalandi sínu, fyrir hartnær áratug, og hefur bæði verið sveltur og pyntaður með raflosti síðan. Mér skilst að fjölskyldan hafi engin raunveruleg tækifæri til að heimsækja hann.
Faðir annars nemanda þurfti að þola svipaðar tiktúrur í öðru landi. Eftir valdaránstilraun í heimalandinu, voru föðurnum gerðar upp sakir um samsæri og dæmdur til langrar fangelsisvistar, án fullnægjandi sönnunar eða tilraunar til rannsóknar. Hann var einfaldlega sóttur, og skilað sex árum síðar. Breyttur maður.
Ég er búin að kenna alþjóðlegum nemendum blaðamennsku við Metropolitan háskólann í Búdapest síðan á vorönn. Nemendur mínir koma hvaðanæva að, en mikið til frá Asíu. Ég kenni bæði stórum hópi Kínverja og Kasaka, nokkrum Rússum og Tyrkjum, Sýrlendingum, Úsbekistum, Víetnömum, Pakistönum og bæði Ungverjum og Rúmenum.
Þetta er frábær hópur og ég hef sterkan grun um að það hvernig samfélagsmiðlar hafa dregið veröldina saman, þýði miklu frekar að uppi sé kynslóðamunur, frekar en kúltúrmunur hjá ungu fólki.
Í dag hnýtti ég önnina saman. Hún hefur snúist um að kenna góða tækni og gefa ráð í blaðamennsku og hvernig eigi að bera sig að við að taka viðtöl, strúktúra texta, leita gagna og svo framvegis. Það er þó ekki hægt að kenna blaðamennsku án þess að taka mýmörg dæmi úr eigin lífi, segja sögur og miðla reynslu. Ég legg mig fram um að galopna verkfærakistuna fyrir nemendur mína.
Næstsíðasti tíminn snerist um aðgang að upplýsingum, og ég fór í löngu máli yfir hin ýmsu lög sem eru í gildi um réttinn til upplýsinga og hvar eigi að leita þess réttar ef stjórnvöld hafna aðgengi að upplýsingum. Ég fann djúpan skort á tengingu við nemendur mína í þeirri kennslustund. Hugmyndin um að nýta réttinn til upplýsinga var í besta falli hlægileg, í versta falli ávísun á aftöku. Ég er ekki einu sinni að ýkja. Þannig sjá mörg þeirra fyrir sér að færi fyrir þeim ef þau myndu beita þeim meðölum sem ég hef reynt að kenna þeim, samviskusamlega.
Í dag lauk ég tímanum á að ræða áfangann og þá von mína að hann hefði verið bæði ánægjulegur og gagnlegur. Í lok hans bað ég nemendur um að rétta upp hönd ef þau upplifðu að áfanginn væri á einhvern hátt gagnslaus - ekki vegna minnar kennslu - heldur vegna þess að þau fengju aldrei að nýta það sem þau hefðu lært vegna stöðu fjölmiðlunar í heimalandinu. Nokkrar hendur fóru á loft og ég skildi það svo mætavel. Síðan ég hóf að kenna hef ég oft hugleitt þessa forréttindastöðu sem ég hef haft í vinnu sl. rúman áratug.
Ég hef trítlað um Alþingishúsið (reyndar með þingvörðinn á hælunum) í leit að viðmælanda þegar fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar sveik mig um skúbb og hann missti forsíðuviðtal fyrir vikið. Ég hef hringt símtal í forseta Íslands og tekið fjöldamörg viðtöl við þau þrjú sem gegnt hafa því embætti síðan ég byrjaði í blaðamennskunni. Ég hef vílað og dílað við lögregluna oftar en ég kæri mig um að muna. Ég tekið við alls kyns skjölum og gögnum sem ég átti ekki að hafa aðgang að, skrifað beittar greiningar og sagt alls konar óþægilega hluti - án þess að hafa áhyggjur af mér og mínum. Auðvitað hefur ferillinn ekki verið auðveldur, og opinberar skammir frá ráðafólki, kvartanir, ofbeldis- og kæruhótanir eru óþægilegur og óþarfa partur af starfinu - en það er a.m.k. hægt að sinna því án þess að vera með hjartað í buxunum alltaf.
Það er beinlínis sárt að horfa yfir nemendahópinn, sem kemur nánast allur frá löndum þar sem stjórnlyndi er ríkjandi stefna, og pólitískar ofsóknir, aftökur og fangelsanir án dóms og laga eru daglegt brauð, og reyna að stappa í þau stálinu. Mér líður stundum eins og einhverjum bláeygum páskaunga þegar ég segi þeim að blaðamennska snúist að svo miklu leyti um hugrekki, og djörfung. Að eini yfirmaðurinn sé sannleikurinn - og að sem blaðamenn séu þau í vinnu fyrir almenning sem á lýðræðislegan rétt á upplýsingum um það hvað stjórnvöld þeirra gera í skjóli nætur. Að fórnir geti verið partur af starfinu. En hvaða fórnir? Fyrir mig hafa þær verið af málfrelsislegum toga - ég hef ekki alltaf sagt allt sem mér dettur í hug, til að gæta hlutleysis. Fyrir þau gætu þær fórnir beinlínis verið frelsið og lífið sjálft. Hvernig kennir maður slíka fórn?
Mynd af mér að kenna. Algjör illi frá Íslandi.