Hann er bara ekkert hot lengur

Hér í Búdapest var Sjálfstæðisflokkurinn til umræðu með morgunbollanum, eins og svo oft áður. Við hjón vorum að velta fyrir okkur fylgi flokksins miðað við skoðanakannanir undanfarnar vikur, nú þegar tæp vika er til kosninga. Það verður að teljast bjartsýnt að ætla að flokkurinn nái hærra en 15% á laugardaginn. Það er sögulegt.

Ég verð að viðurkenna að mér brá eiginlega þegar ég fletti fylgi flokksins upp í kosningum þessarar aldar. Landslagið auðvitað breyst helling og mikilvægt að hafa það í huga. Fjórflokkurinn er dauður og fylgið dreifist því á fleiri flokka að jafnaði núna. Eitt og annað til að velta fyrir sér. En allavegana:

2003

Davíð Oddsson leiðir flokkinn sem uppsker 33,7% og myndar stjórn með Framsókn.

2007

Einu þingkosningarnar sem Geir H. Haarde leiðir flokkinn í gegnum. Framsókn tapar miklu fylgi en Sjálfstæðisflokkur bætir við sig og nær 36,6% atkvæða

2009

Hrunkosningarnar og fyrstu með Bjarna Benediktssyni. Hér var það samdóma álit greinenda að Sjálfstæðisflokkurinn væri að bíða skipbrots. Samt gekk hann frá kosningunum með 23,7%. Þetta er lægsta fylgi flokksins hingað til - en allir vissu í hvað stefndi og ástandið í þjóðfélaginu var eldfimt. Í samhengi hlutanna er þetta fylgi algjör varnarsigur.

2013

Aðrar kosningar Bjarna, og nú eftir heilt kjörtímabil í stjórnarandstöðu. Á kjörtímabilinu kom Vafningsmálið upp og reyndist Bjarna erfitt. Hann var sakaður um skjalafals og var á vitnalista Sérstaks saksóknara í þessu stórmerkilega hrunmáli. Það beit ekkert á Sjálfstæðisflokknum sem gekk frá kosningum með 26,7%.

2016

Wintris-kosningarnar. Komið hafði í ljós að bæði Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson áttu félög í skattaskjólum. Framsóknarflokki var refsað harkalega en Sjálfstæðisflokkur bætti við sig og endaði í 29%.

2017

Enn ein ríkisstjórnin fallin, að þessu sinni vegna uppáskriftar föður Bjarna um ágæti manns sem hafði níðst á börnum. Þetta var þungt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem endaði í 25,2%.

2021

Covid-kosningar. Það hafði eitt og annað gengið á hjá ríkisstjórninni en heilt yfir hafði kjörtímabilið litast af faraldrinum og viðbrögðum við honum. Sitt sýndist hverjum um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar, en þó var Sjálfstæðisflokkurinn verðlaunaður með atkvæðum 24,2% kjósenda. Það heitir fjórðungsfylgi í slumpfræðunum.

2024

Skoðanakannanir benda til þess að flokkurinn verði ekki stærri en 15%. Hann hefur jafnvel verið að mælast með rétt ríflega 11% fylgi. Það er ótrúlegt. Auðvitað hefur margt gengið á á kjörtímabilinu, hvalveiðamálið hefur verið þvílík hringavitleysa, seinni Íslandsbankasalan er eitt allsherjar klúður (og sú fyrri líka, fyrir okkur sem trúum á þá hagfræði að sígandi lukka sé best og það borgi sig að láta hagnaðinn mjatla inn frekar en að taka þann stóra einu sinni... en það er aukaatriði), verðbólga og stýrivextir hafa gert stemninguna á Íslandi mjög súra.

En svo eru það innflytjendamálin. Ég var að þrífa baðherbergið mitt sumarið 2023 og til að gera þá stund öllu ánægjulegri kveikti ég á viðtali kunningja míns og kollega Gísla Freys Valdórssonar við Bjarna Benediktsson í Þjóðmálum. Ég held að við getum leyft okkur að segja að Þjóðmál séu til heimabrúks, og það er bara hið besta mál. Þetta er ekki þáttur sem er sendur út sérstaklega fyrir últra-líberalista að skrúbba baðkarsbotninn sinn í Vesturbænum.

Sumsé, í þeim þætti talar Bjarni um innflytjendamálin á þeim grunni að þau hafi unnið kosningar um gervalla Evrópu og að íslenskir stjórnmálamenn þurfi að fara að horfa til þeirra fordæma. Þetta viðtal hefur setið svolítið í mér síðan. Þá varð mér fyrst ljóst að Bjarni vildi gera innflytjendamálin að kosningamáli, til að verjast fylgistapinu aktívt, miklu frekar en að þau stæðu svo í kokinu á honum í raun og veru. Taktík, frekar en einhver pólitísk sannfæring.

Nema hvað, að þetta hefur augljóslega ekki virkað og fyrir því er ein ástæða: Sjálfstæðisflokkurinn missir allann sinn sjarma þegar hann barmar sér. Það langar engan að sofa hjá einhverjum sem vælir stöðugt yfir örlögum sínum, sem hann eða hún skóp algjörlega sjálf.

Sjálfstæðisflokkurinn er sætastur þegar hann er bjartsýnn, því bjartsýni er svo nærri eðli Íslendinga. Ef það er eitthvað sem ég hef kynnst hér í Ungverjalandi, er hversu sterkur sá samanburður er við íslenska þjóðareðlið. Nú skil ég okkur betur. Eða verr, eftir því hvernig á það er litið.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur bjarta framtíðarsýn og lofar miklu í landi tækifæranna, þá er hann heillandi. Íslenska þjóðin hefur fyrirgefið ótrúlegustu skandala í hjónabandi sínu við Sjálfstæðisflokkinn, af því hann er enn bara svo heillandi og hot eiginmaður. Við fáum enn fiðring - þrátt fyrir öll svikin, brigslin og hliðarsporin. Fyrir sum er Sjálfstæðisflokkurinn ómótstæðilegur; sterkur, sannfærandi og kannski ekki alltaf fullnægjandi, en ég get breytt honum.

En þegar eiginmaðurinn er sestur í húsbóndastólinn, með dregið fyrir stofugluggana, og bölvar öllum um ógæfu sína nema sjálfum sér - þá fellur hratt á hann. Þegar eiginmaðurinn er hættur að bursta í sér tennurnar og stendur og glápir út um rifu á gluggatjöldunum á útlendu fjölskylduna sem er að koma sér fyrir í næsta húsi, þá er þessu hjónabandi sjálfhætt. Það klæðir sig enginn upp fyrir slíkan þurs. Og þjóðin virðist ekki ætla að mæta á kjörstað fyrir þann gæja. Vælandi Sjálfstæðisflokkur er bara ekkert sexý þegar við munum eftir Sjálfstæðisflokki í rokna stuði. Við vorum sjúk í hann lengi, en hann er bara ekkert hot lengur.


Previous
Previous

Frjáls fjölmiðlun er abstrakt fyrirbæri

Next
Next

Enn einn karlinn genginn milli bols og höfuðs