Enn einn karlinn genginn milli bols og höfuðs

Karlar með dagskrárvald hafa skilgreint og endurskilgreint Júdit af Beþúlíu síðan hún afhöfðaði assíriska hershöfðingjann sem ætlaði að leggja þorpið hennar undir sig. Frumheimildin, Júditarbók í biblíunni, gengur út frá því að Júdit hafi nýtt sér þann losta sem Holofernes bar til hennar, táldregið hann og því næst afhöfðað í viðleitni sinni til að stöðva yfirvofandi stríð.

Á fyrri hluta endurreisnarinnar var Júdit hins vegar orðin að skírlífri ekkju og kona mikilla dyggða. Það var óhugsandi, að sannkristin kona væri flagð undir fögru skinni, eða undirförul dræsa?

Nokkru síðar fækkaði Júdit aftur fötum á málverkum karla. Og fljótlega óx með henni aggressjónin. Hún var skilgreind sem manneskja í líkama konu, með ofbeldistilhneigingu karls. Óvenjulega grimm fyrir kvenmann.

Löngu síðar málaði Gustav Klimt, minn uppáhalds myndlistarmaður af estetískum ástæðum fremur en eþískum, tvær myndir af Júdit. Þessa sem hér má sjá lét ég tattúvera á lærið á mér í paraferð til Búdapest 2020. Hún er mér dagleg áminning um að sýna hugrekki, og að þó karlar með skilgreiningarvald hafi löngum þótt kvenleg vopn siðlausari en sín eigin, sem byggja á vöðvaafli og útilokunartaktík, þá séu þau í engu bitlaus eða ónothæf. Júdit bjargaði þúsundum þegar hún táldró ölóðan Holofernes sem var fullur af yfirlæti og ofbeldisbríma. Og, hún skrifaði sig beina leið inn í biblíusögurnar á brjóstunum án þess að skammast sín neitt.

Previous
Previous

Hann er bara ekkert hot lengur