Jólapæling um sjálfstraust og sjaríalög
Við Freyr erum búin með allt fyrir jólin, nema sjálfa matreiðsluna. Hann rogaðist heim með átta kílóa kalkún af markaðnum áðan (sem hann borgaði 5.500ISK fyrir) og nú fyllir ferlíkið upp í litla ísskápinn okkar og bíður tilgangs síns.
Listaverk sem ég sá á aðventunni. Vatnsmelónan er langsamlega heitasta mótífið í listaheiminum í dag, út af Palestínu auðvitað.
Ég er búin að vera í smá vestrænu forréttinda sjokki undanfarnar vikur. Vinkona mín og bekkjarsystir frá Íran er í persónulegri klemmu. Hana langar heim til Tehran eftir masterinn okkar en pabbi hennar bannar henni að flytja heim aftur út af dottlu. Þegar hún sagði mér frá heimþránni starði ég á hana opinmynnt og reyndi að skilja hvor okkar væri heimsk; Ég, fyrir að hafa verið mötuð af fullkomnum ranghugmyndum um stöðu kvenna í Íran, eða hún, fyrir að langa heim til lands þar sem hún gæti átt yfir höfði sér dauðarefsingu ef hún fylgir sannfæringu sinni frekar en sjaríalögum?
Ég er ekki með vott af heimþrá eftir Íslandi, sem konsepti. Samt bíður mín mjúkur faðmur fjölskyldunnar, og fallega heimilið okkar.
Það er frekar auðvelt að skúffa mig, hef ég komist að. Þó ég sé fróðleiksfús hefur einsleitt íslenskt samfélag ekki reynst neitt frábært veganesti þegar kemur að djúpum skilningi á ólíkum menningarheimum. Maður getur vitað svo margt, en skilið svo fátt.
Upp úr dúrnum kom að vinkonu minni þykir meginland Evrópu hafa barið meira á sér en heimalandið. Hún segist vera þunglynd hér, því hana skortir tilgang. Stóri söknuðurinn sé eftir starfsferli sem hún átti heima í Íran, m.a. í kvikmyndagerð og framleiðslu auglýsinga. Ungverjaland hafi ekki boðið henni neitt nema vinnu í minjagripabúðum eða túristabúllum. Mín kæra vinkona upplifir í raun að það sé búið að kremja í henni andann. Ég kom af fjöllum, en aðrar bekkjarsystur okkar skildu hana vel.
Nú segja þau sem lesa; Já, svona eru þeir vondir við útlendinga í Ungverjalandi.
En ef við erum heiðarleg við okkur sjálf, vitum við að þetta er nákvæmlega eins á Íslandi. Þar starfar læknismenntað fólk við ræstingar, og verkfræðingar í mötuneyti IKEA. Störf sem er ekkert að því að sinna, en útlendingar hafa köllun eins og við hin, og mörg menntum við okkur til að geta sinnt ástríðunni. Íslendingum finnst oft sjálfsagt að útlendingar sinni hvaða starfi sem er í skiptum fyrir að fá að vera þar.
Íranska vinkona mín á ættingja í Kanada og ég hvatti hana til að flytja þangað eftir útskrift. Ég veit ekki hvort atvinnuástandið fyrir konu með hennar menntun og reynslu sé neitt skárri þar, en hún væri að minnsta kosti á meðal frændfólks sem þykir vænt um hana. Hún var efins, því til Kanada hefur hún aldrei komið og túristabúllurnar þar ekkert skárri en hér. Mest langar hana bara heim.
Annars er það helst að frétta að aðventan hefur verið okkur góð. Ég hef heimsótt ógrynni safna og gallería undanfarna mánuði, og nú er ekkert eftir á þessari önn nema ein ritgerð.
Allar gjafirnar eru nú þegar komnar undir tréð, merktar og innpakkaðar, og bíða þess að vera tættar upp á þriðjudag.
Ég geri ráð fyrir að önnur vinkona mín fljúgi frá Indlandi og verji aðfangadagskvöldi með okkur. Hún ætlaði að vera með fjölskyldunni í Mumbai en þegar þangað var komið mættu henni bara lítt-dulbúnar svívirðingar og leiðindi um holdafar og kærastaleysi.
Á jóladag ætlum við í óperuna með stelpurnar að sjá Hnotubrjótinn. Það hefur verið smá hefð undanfarin ár að gefa þeim leikhúsmiða á jólunum og ég hlakka mikið til að bjóða þeim á þennan klassíska ballett í okkar fínasta pússi.
Um kvöldið koma rússneskir vinir okkar í heimsókn og borða hangikjöt, uppstúf og tilbehør. Það eru auðvitað ekki eiginleg jól hjá þeim, ekki frekar en flestum öðrum samnemendum mínum, en þau eru samt til í að gera sér dagamun með okkur. Ég hef mestar áhyggjur af því að hangikjötið hitti ekki í mark hjá gestunum og Frey þyki hann hafa sóað sínu kjöti í annarra kjaft, sem hann hefði sjálfur getað étið. Sjáum til.
Það er kannski helsti söknuðurinn um þessi jól og áramót: Að vera ekki á leið í nein jólaboð og hitta fólkið okkar, sem við unnum svo heitt.
Um síðustu jól vorum við með fullt hús af fólki og öll aðventan gríðarlegt havarí. Það var ansi skrautlegt að þvælast bæinn endilangan um miðja nótt með sáran ungling í eftirdragi í leit að stolnu veski, vegabréfi, kortum og fleiru, eftir að hafa álpast með hluta hópsins á stórkostlegasta klúbb borgarinnar. Hér í Búdapest eru þjófarnir strangheiðarlegir - og skiluðu öllu nema veskinu sjálfu. Vonandi fékk einhver veskið sjálft í jólagjöf. Það var algjört lán í óláni að þurfa ekki að heimsækja okkar góða ræðismann á jóladag til að útvega neyðarvegabréf. Ég þakkaði líka fyrir að þola vín vel þá nótt.
Að þessu sinni er desember öllu rólegri. Við höfum verið að heimsækja skautasvell borgarinnar, sem eru drjúgmörg, ætlum á sérstaka jólaljósasýningu á laugardag og svo erum við upptekin við að njóta kyrrðarinnar. Ætli við munum ekki sakna kyrrðarinnar á næsta ári þegar við höldum jólin á Íslandi aftur. Maður er manns gaman, og allt það - en kæruleysið og kröfuleysið er líka næs. Í Búdapest þurfum við ekkert að sperra okkur, frekar en við viljum.
Gleðileg jól Snærós