Sjónin mín: Tilfinningapistill
Eftir ellefu daga fer ég í laser-aðgerð á augum og öðlast 100% sjón, að minnsta kosti tímabundið.
Raunar hafði ég aldrei ætlað í slíka aðgerð. Ástæðan er sú að ég er með síversnandi sjón og taldi þar að leiðandi að aðgerðin væri peningasóun.
Nú er svo komið að mitt ráðandi auga, það vinstra, er með -6 og mitt víkjandi auga, hægra augað, stendur í -7.5. Sama hvernig fer, yrði það mikil lífsgæðaaukning að sjá betur. Jafnvel þó ég þyrfti aðstoð gleraugna og linsa aftur eftir einhver ár, ef sjónin heldur áfram að daprast.
Verð á svona aðgerð er mun hagstæðara í Búdapest en á Íslandi, svo ég slæ til.
En sem ég var í mælingum á öllu sem viðkemur augunum í gær var ég spurð hvað ég hefði haft gleraugu lengi. Og ég varð meyr. Eða viðkvæm. Næstum sorgmædd.
Sú tilfinning kom fullkomlega aftan að mér.
Það eru 29 ár síðan ég fór í 4ra ára skoðun og kom út með þann dóm að ég væri með sjónskekkju. Barnung augu mín námu ekki þrívíddarmyndirnar sem notaðar voru til að meta það hvort sjónin þroskaðist eðlilega. Nokkrum árum síðar þróaði ég með mér nærsýni, og síðan þá hef ég þurft ný gleraugu á 2-3 ára fresti. Gleraugun hafa óneitanlega verið stór partur af mér. Þó ég hafi á síðari árum notast mest við linsur þá hafa gleraugun verið fylgifiskur minn alla mína hunds og kattar tíð.
Ég á sterkar minningar tengdar öllum þeim gleraugum sem ég hef notast við undanfarna þrjá áratugi. Sumar eru ómerkilegar, aðrar karakterskapandi - og í sjálfu sér er íþyngjandi fyrir barn að hafa hjálpartæki á borð við gleraugu á andlitinu frá unga aldri. Jafnvel þó gleraugu þyki hversdagsleg, þá vekja þau athygli, spurningar og afskipti annarra barna. Spurningar um hvort ég sé blind, hvað ég sjái illa og hvort ég geti ekki sleppt gleraugunum voru daglegt brauð. Ég hef ósjaldan verið beðin um að fá að prófa og er aðeins nýlega hætt að leyfa það. Ég segi meira að segja nei við börnin mín, þó mér þyki það erfitt.
Gleraugun ollu vandræðum í skólasundi, á körfuboltaæfingum, í frímínútum og auðvitað þegar það snjóaði. Það hefur verið daglegt brauð, alla mína ævi að vera nánast sjónlaus í vissum aðstæðum. Eftir því sem árin liðu fór ég að glíma við hamlandi næturblindu og ofbirtu í ýmist myrkri eða sól. Augun ráða illa við að keyra í myrkri og rigningu, og án sólgleraugna er ég alveg blinduð á sólríkum dögum eða ef allt er á kafi í snjó.
Það verða því mikil viðbrigði að eiga sjónsterk ár framundan, jafnvel þó mér endist þau ekki út ævina. Það er í raun ekki fyrr en núna sem ég átta mig á áhrifum sjóndepurðinnar á líf mitt — svo ríkjandi partur af því hefur hún verið. Svo hér er gleraugnaannáll ævi minnar:
1996-1998
Fyrstu gleraugun. Það var ógleymanleg upplifun að fá þau, og ég barðist mjög gegn því að hafa þau. Gólfið bylgjaðist fyrir framan mig þegar heimurinn varð allt í einu þrívíður, og mér varð óglatt.
Sama dag og ég fékk þau flugum við mamma til Köben til sumardvalar. Hún vann á hóteli og við deildum tvíbreiðri vindsæng það sumarið. Mamma pressaði lítið á mig að nota nýju gleraugun og þau voru mest upp í gluggakistu þar til við komum heim til Íslands um haustið.
1998-2000
Nú var orðið ljóst að ég væri líka nærsýn. Gleraugun eru rauð, en að öðru leyti eins löguð og regnbogagleraugun sem ég hafði valið mér fyrst. Það var erfitt að venjast þeim því styrkbreytingin var mikil.
Bangsinn heitir Ívar, í höfuðið á Ívari sem gaf mér hann og seldi mér öll gleraugun mín utan einna.
2000-2002
Fyrstu kassagleraugun. Þarna hafði sjónin versnað töluvert minnir mig, og það voru viðbrigði að fá gleraugun. Ógleði og vesen. Þegar ég fékk þessi var Ívar vinur pabba orðinn sjóntækjafræðingur og við héngum oft bakvið í gleraugnabúðinni hans. Hann leyfði mér reglulega að þrífa gleraugun í sérstökum hreinsipotti með rafmagnsbylgjum, og ég get enn heyrt í bylgjunum þegar ég rifja það upp.
2002-2004
Ég var lögð í einelti um það leyti sem ég notaði þessi gleraugu. Einn snjódaginn var komið að Auðunni bekkjarbróður mínum að sýna strákunum að það væri eitthvað í hann spunnið, svo hann elti mig uppi í frímínútum, felldi mig í skafl og kaffærði mig grimmilega í snjó. Ég man að það safnaðist töluverður snjór inn á gleraugun svo ég blindaðist algjörlega á meðan, og eftir að árásinni stóð.
2003-2004
Þessi gleraugu liggja á botni Úlfljótsvatns. Ég sveiflaði mér á kaðli yfir vatnið í skólaferðalagi og lét mig gossa út í, eins og ætlast var til. Þegar ég kom upp úr voru gleraugun hvergi sjáanleg og ítrekaðar tilraunir, og leit með kajak skiluðu engum árangri. Ég var því mjög sjóndöpur út ferðalagið og skemmti mér illa.
2004-2005
Þarna er ég á leið á árshátíð í Hagaskóla í kjól sem ég keypti annað hvort á Hróarskeldu eða í Spúttnikk og með hálsfesti sem amma Helga hafði átt. Mamma og Grímur höfðu boðið mér á þessa goðsagnakenndu rokkhátíð í fermingargjöf þá um sumarið, og vegna gleraugnanna var ég í klassísku sólgleraugnaveseni í steikjandi sólinni.
2005-2007
Unglingagleraugun mín. Ég átti kærustu og gleraugun pössuðu vel inn í emo/goth lífstílinn sem ég lifði á þessum árum. Lífið gerðist mikið til á internetinu, á hinum ýmsu bloggsíðum og samfélagsmiðlum fyrir aðra krakka með sömu áhugamál.
2007-2008
Þessi entust stutt. Í útilegu í Þórsmörk, þegar þessi mynd var tekin, misreiknaði ég herfilega á leið inn í háan jeppa og lenti með andlitið á farþegahurðinni hinumegin. Umgjörðin fór í sundur á nefinu. Einu gleraugun mín sem hafa brotnað og þau einu sem ég keypti ekki af Ívari í Hafnarfirði.
2008-2011
Þessi gleraugu voru, af einhverri ástæðu, mjög vinsæl hjá áhugasömum körlum þegar ég var ung. Þau voru oft ísbrjóturinn sem náungar á börum miðborgarinnar notuðu til að nálgast mig. Þær pickuplínur virkuðu aldrei á mig, enda fannst mér óþægilegt að hlusta á hrós um gleraugun.
2011-2013
Þessi gleraugu fóru mér vel. Þau voru rauð innan í örmunum og stálgrá að framan. Mér var synjað um gleraugnastyrk frá VR við þessi gleraugnakaup og man að ég var mjög skúffuð yfir þeirri synjun, enda tekjulág og blönk.
2013-2016
Með þessi gleraugu á nefinu kom ég frumburðinum, Urði Völu, í heiminn á Landspítalanum við Hringbraut. Sú stutta fæddist rétt fyrir vaktaskipti, um 7:50 um morguninn, og það er gleraugunum að þakka að ég sá hana strax.
2016-2020
Skúbbara gleraugun. Þessi gleraugu sáu stjórnarslit í beinni frá Bessastöðum, grannskoðuðu Búnaðarbankasöluna og allt hvaðeina. Samstarfskona mín hafði þann ósið að taka þessi gleraugu af mér í tíma og ótíma til að „þrífa þau“ í meðvituðu taktleysi til að breiða yfir grasserandi minnimáttarkennd. Fátt er jafn óþægilegt en að vera blindaður reglulega vegna svoleiðis stæla og á endanum afþakkaði ég frekari yfirgang.
2020-2023
Fyrstu gleraugun sem ég ákvað að skipti eiginlega ekki máli hvernig litu út því ég ætlaði hvort eð er alltaf að nota linsur. Í raun sáu þau fáir því Covid brast á, en gleraugun voru mikið á nefinu heima fyrir þegar ég skrifaði Heiðina, fyrsta rannsóknarhlaðvarpið mitt. Samstarfsfélagi minn óskaði mér „til hamingju“ með þessi gleraugu, sem mér þótti alltaf eitthvað furðulegt orðalag.
2023-2025
Síðustu gleraugun, í bili a.m.k.. Það var mér kappsmál að kaupa þessi áður en ég hætti á RÚV til að nýta gleraugnastyrkinn sem vinnustaðurinn og stéttarfélagið buðu — áður en blankheit í námi tækju við.
Ívar reyndi að sannfæra mig um að svona stór gleraugu yrðu mjög minnkandi fyrir augun, vegna styrks glerjanna, og hafði auðvitað rétt fyrir sér. Þessi gleraugu fara mér vel en minnka augun mikið og hausinn á mér dregst saman á bak við þau. Síðustu daga hef ég haft þau stanslaust á nefinu því ég má ekki nota linsur í aðdraganda aðgerðarinnar, en að henni lokinni þarf ég að finna þessum gleraugum viðeigandi stað til þeirra hinstu hvílu.